<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, október 30, 2003

brot af lífi einhvers annars 

hefur ykkur aldrei langað að hnuppla innkaupakerru einhvers annars þegar þið eruð að versla í einhverjum stórmarkaði?? tæma svo allt úr ísskápnum ykkar og raða innihaldi Nebúkarnesar Nebúkarnesarsonar í ísskápinn ykkar. reyna svo að blanda samsetningu Nebúkarnesar við þína eldamennsku. þannig ertu búin(n) að tengjast þessari óþekktu persónu á vissan hátt. gægjast inní þennan hlut lífs hennar.

kannski svoldið eins að kíkja inní lyfjaskáp einhvers (sem ég hef btw aldrei gert)

það sem maður kaupir er hluti af þinum einkennum. svipað og fingraför. ég er viss um að engir tveir eins eiga sömu samsetningu matarkerru. þetta hvarflar að mér í hvert sinn sem ég fer út að versla. fyrst vegna þess að ég var svo óákveðinn að ég gat ekki ákveðið hvað ég vildi hafa í matinn og hugsaði að það væri bara sniðugt að láta einhvern annan ákveða þetta fyrir mig. síðar fór ég svo að spá í aðrar hliðar á þessu.

málið er hins vegar að ég hef ekkert að gera við dömubindi.

miðvikudagur, október 29, 2003

ansi gott! 

á selfossi er smíðakennari sem lamaðist fyrir neðan mitti þegar hann féll við byggingarvinnu. (OG HVAÐ?)...og hann á eineggja tvíburabróður. (OG HVAÐ?) já...þeir eru alveg eins!! JÁ?! og annar getur gengið, en hinn ekki! það líður víst yfir fólk þegar það sér manninn sem er bundinn í hjólastól ganga og læknarnir í endurhæfingunni á reykjarlundi voru víst furðu lostnir, yfir skjótum bata, þegar þeir mættu honum gangandi fyrir utan herbergi sitt.


sunnudagur, október 26, 2003

kæri lesandi. þér hafið verið blekktur! 

ferðin til frakklands fór aðeins fram í hugum okkar.

................en ég þakka samt hinum fjölmörgu sem trúðu þessari vitleysu og skrifuðu mér fyndin komment í sms-i, msn-i og shout outi!!!


föstudagur, október 24, 2003

heim skal ég.... start of level reykjavík 

er að koma heim á sunnudag. tek lestina til carcassonne í kvöld. einn. hlakka til að hitta krakkana...-er búinn að sakna þeirra mikið undanfarið.

ég get ekki séð betur en þetta sé sjálfdautt hjá mér og adéle. við urðum að taka sitthvora flugvélina til marseilles vegna þess að við vorum á einhverjum ódýrum hopp miðum. hún tók fyrri vélina og ég þá seinni, morguninn eftir. það var hins vegar engin adéle á flugvellinum til að taka á móti mér eins og um hafði verið rætt og hún svaraði ekki gemsanum. ég tók auðvitað bara strætó niðrí bæ og þar hitti ég góða vinkonu hennar fyrir utan húsið sem hún býr í. hún sagði mér að adéle sæti í varðhaldi vegna smygls. hún sagði mer að adéle hefði drýgt tekjurnar í gegnum árin með því að fara til marokko og smygla öllum fjandanum yfir til frakklands í gervifætinum. allt frá fíkniefnum til fornminja og skartgripa. vinkonan sagði að hún hefði verið tekin núna fyrir að smygla safran en ég trúi því tæpast. er hræddur um að þetta hafi verið eitthvað alvarlegra....vonandi ekki minjagripur frá "hassbóndanum".

er búinn að reyna að ná tali af henni án árangurs. ég fæ hvorki að tala við hana né skrifa bréf amk næstu vikuna. ætla að fara núna að tala við sænska konsúlinn í marseilles og gá hvort hann getur eitthvað hjálpað mér.

ég sé núna að það borgar sig ekki að skrifta nema að maður hafi gjaldmiðil til að gjalda fyrir syndir sínar. ég gat ekki farið með maríubænirnar. og því fór málið greinilega í innheimtu.

megas sagði að ókeypis væri allt það sem er best
en svo þyrfti maður að gjalda dýru verði það sem er verst.

sjáumst fljótlega

þriðjudagur, október 21, 2003

marokkó: jói og töfrateppið 

langt síðan maður hefur séð ykkur! er í erfoud í norður marokko en er búinn að vera í casablanca meira og minna síðan á föstudag. play it again sam. við gistum á litlu gistiheimili hjá meira en lítið hýrum manni (veit ekki alveg hvorri merkingunni). hann á hund sem heitir philippe og borðar (étur!) chicken mcNuggets með sweet n' sour sósu í öll mál...þeas tvisvar á dag. þetta er svona lítill rottuhundur, oft klæddur einhverri rauðri múnderingu. hann fær mcNuggets á postulínsdisk og dýfir sjálfur bitunum í sósuna!!! ótrúlega fyndið að sjá! en nóg um þennan hund.

við erum búin að skoða okkur mikið um þarna. fara á markaði, drekka te, prútta og borða fullt af marokóskum mat þar sem undirstaðan er lambakkjöt; soðið eða grillað, ýmiskonar grænmetisréttir og cous cous.

fyrstu hughrif mín af marokko voru svoldið súrealískar upplifanir. maður er duglegur við að klípa sig í handlegginn. allir sansar eru uppteknir af lykt, tónlist, hrópum, jarmi og suði lítilla skellinaðra. þetta eru mörg lög af upplifunum. marokko er land lyktar. þegar maður er á ferð um markaðina er auðvelt að vita hvað er aðal verslunarvara hvers markaðar; krydd, ilmvötn, leður, viður, krydd, fiskur, grænmeti og te. maður fær samt fljótt uppí háls af myntute því það eru allir með heitt á katlinum og það er argasti dónaskapur að þiggja ekki bolla (lesist lítið glas) af myntutei (blanda af myntulaufum og "gun powder" tei). það er prósess og viðkvæmur prósess að kaupa alla dýrari hluti. t.d. ef þú ætlar að kaupa handunnið teppi þá þýðir ekkert að ætla að hoppa inní búð og kaupa bara eitthvað (nema kannski á túristamarkaðnum). maður verður að gefa sér tíma. setjast niður og ræða heimsins vandamál yfir tebolla. svo eru manni sýnd nokkur teppi. yfirleitt eru þessi teppi sem þeir sýna fyrst í lágum gæðaflokki. á þessu stigi þarftu að passa að móðga þá ekki en samt gefa í skyn að þú sért að leita eftir vöru í hærri gæðaflokki. svona gengur þetta í smá stund. þeir vilja ekki selja einhverjum fínt teppi sem hefur ekki vit á því að þetta sé fínt teppi. þeir byrja á því að komast að því hversu mikinn sans þú hefur fyrir gæðum. svo byrjar prútt um verð. það eru auðvitað líka reglur þar þó ég viðurkenni að ég hef ekki alveg náð tökum á því. en ég veit þó að þeir verða hreinlega móðgaðir ef maður prúttar ekki neitt. ég keypti mjög fallegt teppi....töfrateppi jóa. fróðir menn sögðu það af allra bestu gerð en að ég hefði borgað helmingi of mikið fyrir það. en ber að nefna að ég fékk asna (já, lifandi asna!) í kaupbæti sem ég gat ekki afþakkað. hann. hann er tjóðraður hér fyrir utan as we speak og ég þarf að fara að reyna að losna við hann. það hlægja allir að mér. ég hlýt að vera hinn útvaldi. gott að fólk geti skemmt sér á minn kostnað!

verð að hætta núna. er í einhverri internet búð og er búinn með tímann minn og búinn með mekka kóla flöskuna. ég fer aftur til frakklands á morgun skrifa kannski eitthvað meira frá flugvellinum um marokkodvölina. kem sennilega heim á laugardag, enda löngu orðinn blankur!

miðvikudagur, október 15, 2003

MarseillesII 

búið að vera frábært undanfarna daga. er að fara í matarboð annað kvöld þar sem þemað er þekktir stjórnmálamenn (lífs eða liðnir). allir koma með einhvern rétt sem var í uppáhaldi hjá viðkomandi eða frá landi hans. ég er ekki búin að ákveða hvað ég verð. hvað finnst ykkur? einhverjar hugmyndir?

ég hef annars ekki verið mjög upptekinn af ferðamennsku undanfarið þó að ég sé duglegur að rölta um á daginn og skoða og upplifa borgina. ég kann mjög vel við mig hérna....það er eitthvað við andrúmsloftið....svo ekki sé talað um matinn! i must say!

við adéle erum byrjuð að fella hugi saman. við njótum samveru hvors annars frá klukkan tvö á dagin (þegar hún kemur úr vinnunni sem er aðeins lítinn spöl frá). á föstudag ætlum við að skreppa yfir til marokkó. hefur lengi langað að koma þangað. adéle þekkir víst vel til þar og hefur komið þangað oft.

úfff...verð annars að fara að drífa mig heim eða finna mér vinnu!!! það er farið að minnka í pyngjunni. hvernig væri að stofna sjóð: útiverusjóð jóa eða "jóa að heiman". hmmm???

þið fáið bitastæðara blogg þegar ég kem frá marokkó. býst ekki við að það séu internetkaffihús á hverju götuhorn i þar.

sunnudagur, október 12, 2003

Marseilles I:busy 

rétt stalst í tölvu til að láta vita af mér. er í marseilles og er búinn að hafa það gott um helgina og hafa nóg að gera. fara í matarboð, djamma, skoða, fara á markaði og taka þátt í gjörningi. ætlum að skreppa til marokko í næstu viku. meira fljótlega...gotta go!

fimmtudagur, október 09, 2003

Carcassonne II: gervifótur, dúfur og 29 maríubænir 

fór í matarboð í fyrrakvöld til adéle, nýju frönsk-belgísku vinkonu minni. Þar voru vinkonur hennar marcelle, zoé og eric sem er elskhugi zoé (?). adéle er píanókennari og býr reyndar í marseilles en hún er alin upp í carcassonne þar sem fjölskylda hennar á stórt hús í útjaðri bæjarins með rauðvínsrækt og tilheyrandi. fyrstu kynni mín af henni voru nokkuð skondin. ég sat á litlu útikaffihúsi/bar og var að reyna að panta eh að snæða. hún sat þarna á borðinu við hliðina á með vinkonum sínum. hún heyrði að ég átti í eh vandræðum með pöntunina við hin frönskumælandi þjón og bauðst til að hjálpa mér. hún spurði hvaðan ég væri og ég svaraði iceland.....islande..... “Ahhhh” svaraði hún “össur” og bankaði í hægri fót sinn sem svaraði með holu, hvellu hljóði. hún hafði þá misst neðan af fætinum þegar hún vann fyrir hjálparstofnun í súdan og steig ofan á jarðsprengju fyrir fjórum árum. össur smíðaði svo fót fyrir hana....eða reyndar einhver gunnar sem vinnur þar og var víst mjög duglegur að máta fótinn á hana. Að hennar mati full duglegur (hún spurði hvort íslendingar væru svolitlir barbarar í sér....).

í forrétt fengum við ætiþystla í dijon-mæjones sósu sem var ríkilega krydduð með fersku kryddi. Þetta var óendanlega gott...kannski vegna léttis því ég hafði miklar áhyggjur af því að fá kjúklingalifur því frakkar eru víst duglegir við innmatinn...en eins og sumir vita þá er ég andstæðingur innmats nr eitt. það tók að sjálfsögðu dágóða stund að borða forréttinn og ég þurfti þvílíkt að halda aftur af mér að borða þetta ekki í einum munnbita, barbarinn ég. Það leið góður klukkutími áður en aðalrétturinn var borinn fram. Það voru dúfur í kampavíni með sveppasósu. Þetta er víst dæmigerður réttur fyrir þetta svæði. með dúfunum voru létt smjörsteiktar belgbaunir. með þessu drukkum við “heimabrugg” af talsvert öðru kaliberi en við þekkjum hér heima. eftirmatinn, súkkulaðifrauð borðuðum við svo ekki fyrr en uppúr miðnætti. Með honum drukkum við dísætt desertvín. þegar hér var komið sögu vorum við öll vel södd og nokkuð hífuð. Þegar við vorum búin að jafna okkur á átinu þá sungum við og dönsuðum við undirleik adéle. ég kenndi þeim íslenskar klámvísur og ættjarðarlög og þau kenndu mér franskar drykkjuvísur. það kom mér á óvart hvað frakkarnir eru hressir og lífsglaðir. Þau kunnu líka alveg að meta norrænan neðanbeltishúmor og groddaskap.

í gær lóðsaði adéle mér svo um bæinn og fór með mig á markað þar sem hægt var að fá allt milli himins og jarðar....um helgar fæst víst enn meira...allt milli svarthols og örvera? ég gerði tilraun til að skrifta. mér var sagt að fara með 29 maríubænir (ein fyrir hvert ár sem ég hef lifað). ég sagði eins og var að ég kynni ekki neina maríubæn og spurði hvort ég mætti ekki fara með faðirvorið í staðin. prestur brást hin versti við og hélt ég væri að gera grín að sér og sagði mér að hypja mig út!! ég verð sennilega að gera aðra tilraun; í annari kirkju eða í sömu kirkju með norskan hreim.

í gærkvöldi fórum við geiri svo og borðuðum á einhverri knæpu. það var svo sem ekkert mjög þjóðlegur matur því þar fengum við “fish & chips” og drukkum bjór með.

núna á eftir er ég svo að fara með adéle til marseilles via montpellier með lest. hún ætlar að sýna mér borgina og kynna mig fyrir vinum sínum sem hún segir við mitt hæfi. hvað er við mitt hæfi??

Maður spyr sig.

Meira en nóg í bili....

þriðjudagur, október 07, 2003

Carcassonne I: frakkland! 

þá er ég kominn til carcassonne og búinn að komast að því að ég er staddur í frakklandi. ég þurfti auðvitað að bíða dágóða stund eftir farangrinum en það fylgir svona þróunarríki eins og frakklandi. ég ákvað að það væri smart að taka leigubíl frá flugvellinum til byrja að kynnast borginni og einnig til að fá hjálp við að finna gistingu. við fundum hótel í útjaðri miðborgarinnar sem heitir au royal og er rétt við palais justice. þetta er mjög sætt og undarlegt lítið gistihús. allt þarna inni er frá því fyrir fyrra stríð. snjáð en vinalegt. lyktin þarna er einhverskonar sambland af vindla- og leðurlykt. það er eldri maður sem rekur þetta og fær við það hjálp dóttur sinnar. hann heitir gerard depardeu, alveg eins og kvikmyndaleikarinn (eða það sagði hann mér amk). hann líkist honum þó lítið að því undantöldu að hann er með amk jafn stórt kartöflunef og leikarinn. sem er mjög spaugilegt því þessi karl er eflaust ekki hærri en 160cm og er þvengmjór. hann er mjög lappastuttur en með stóra fætur sem eru í meira lagi útskeifir (slær mér við!).

þegar ég kom á hótelið fattaði ég náttúrulega að ég hafði tekið ranga tösku af flugvellinum. hélt að ég væri sá eini sem ætti svona köflótta gamaldags tösku. en viti menn....ég komst að því að einhver mjööööög stór kona á samskonar tösku. komst að því þegar ég opnaði hana og við mér blöstu blúndunaríur í stærðinni XXXXXXX-L og brjóstarhöld í stíl! þetta var næstum allt of súrealistískt...tala nú ekki um þar sem hún var með hluta dótakassans síns þarna (ojjjj bjakk...svona konur eiga ekkert að vera að leika sér!). ég hringdi útá flugvöll og komst að því að konan væri með mína tösku. geiri var svo indæll að skutla mér að sækja töskuna enda formlega búið að loka gistiheimilinu. á bakaleiðinni tókum við svo smá sightseeing og sýndi hann mér grundvallaratriði borgarinnar en hún er ma þekkt fyrir miðaldarborg innan borgarinnar. við geiri enduðum svo kvöldið á því að kíkja á knæpu þar sem fyrir voru karlar á miðjum aldri og tannlausar konur. þarna var spiluð harmónikkumúsik og svaka fjör. ég slarfaði í mig nokkrum bjórum og endaði svo á því að ég dansa "lambada" við einhverja konu sem var amk helmingi stærri og mjög fjörug! fékk svo lykilinn hjá geira og labbaði þessa 300m að gistiheimilinu.

svaf út í morgun. vaknaði ekki fyrr en að verða tólf og er búinn að vera að skoða mig um, éta osta og drekka rauðvín í allan dag með "locals" sem eru mjög opnir fyrir norrænum félagsskap. það er meira að segja búið að bjóða mér í mat í kvöld.......hlakka til! á morgun ætla ég svo að skrifta í bastillunni sem er örskammt frá þar sem ég bý. þurka út 29 ár af syndum.

meira fljótlega!

mánudagur, október 06, 2003

Carcassonne via London 

sit á netkaffihúsi á heathrow. ákvað að gera eitthvað sem maður gerir aldrei. var að kaupa ódýrasta miða með ryanair "anywhere". carcassonne er þetta "anywhere". veit ekki einu sinni hvar það er og ætla ekki að reyna að komast að því fyrr en ég er lentur þar seint í kvöld! þetta verður ævintýri...þetta verður gaman! áætluð heimkoma: veit ekki alveg..sjáum hvað gerist! er með frí í vinnunni til næsta mánudags! meira um þetta á morgun!!!

föstudagur, október 03, 2003

"bráðum færðu hár í nefið pabbi" 

sagði salvar í gær.
"nú?" spyr ég
"-já, þegar þú verður gamall..." svarar hann mjög skilningsríkur og sannfærandi á svipinn.


ég dissaði hann náttúrulega bara á móti og sagði að hann væri pínulítill stubbur, að nitze hefði drepið jólasveininn og að tannálfurinn hefði einfaldlega aldrei verið til...þetta ætti að kenna honum....huhh!!!

biðst annars afsökunar á lélegri frammistöðu hérna undanfarna viku. það er búið að vera bölvað að gera og tölvuvesen þar að auki. verð voða duglegur í næstu viku. ég lofa!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?